Select Page

Áætlað er að 47% allra mýra á Íslandi hafi verið raskað með framræslu og allt að 70% votlenda á láglendi.

Lítill hluti raskaðra votlenda er í dag nýttur til landbúnaðar eða ræktunar og því gegnir framræslan oft á tíðum takmörkuðum tilgangi.

Landnýtingarkort 2021

Landnýtingakort-Innskot suðurland
Skýringar Landnýtingarkort

Landbúnaðarháskóli Íslands hefur í tvígang (2008 og 2020) hnitað inn skurði landsins. Heildarlengd skurða 2020 er samkvæmt því 33.000 km. Góð kort af skurðakerfi landsins er forsenda þess að meta umfang framræstra svæða.

Einkenni

Íslensk votlendi þekja um 8660 km² sem eru um það bil 15% af grónu flatarmáli landsins.

Gróður

Það sem einkennir gróðurfar íslenskra mýra er mikil gróska, þekja æðplantna er mikil og þekja barnamosa lítil þó að mikið sé um aðra mosa í sverði.

Mýrarnar eru eru mikilvæg búsvæði sjaldgæfra plöntutegunda og tegunda sem njóta verndar. Algengar tegundir eru ýmsar starir (Carex spp.), elftingar (Equisetum spp.) klófífa og smárunnar.

Jarðvegur

Jarðvegur mýra er afar ríkur af lífrænu efni vegna þess að þar aðstæður ekki hliðhollar rotverum og það lífræna efni sem fellur til ár hvert brotnar ekki niður nema að hluta til en safnast þess í stað upp. Vegna aðstæðna hérlendis: eldvirkni og jarðvegsrofs, berst töluvert af steinefnum í jarðveg mýranna og því er jarðvegurinn næringarefnaríkur og sýrustig er tiltölulega hátt.

Kolefni jarðvegs er oft lægra en 25 % í efri lögum en hærra í neðri lögum. Þó að hlutfall kolefnis sé tiltölulega lágt miðað við mýrar heimsins er magn kolefnis hátt þar sem steinefnin eru alla jafna viðbót við lífræna efnið en koma ekki í stað þess.

Fuglar

Votlendi ýmiskonar eru mikilvæg búsvæði fugla og yfir 90% íslenskra fugla utan sjófugla byggja afkomu sína að einhverju leiti á þeim. Íslensk votlendi eru einkar mikilvæg fyrir vaðfugla á norðurhveli jarðar og er þéttleiki þeirra oft mun hærri hérlendis en í nágrannalöndum okkar.

Talið er að umfangsmikil framræsla mýra á 20 öldinni hafi orðið þess valdandi, ásamt innflutningi á mink, að keldusvín er nú útdauð tegund á Íslandi.

Saga
Virk framræsla

Samkvæmt náttúruverndarlögum nýtur votlendi yfir 2 hektara að stærð sérstakrar verndar. Enn er þó nokkuð um óheimila framræslu. Frekari röskun á lítið framræstu landi er líka algeng. Mikilvægt er að efla vernd fjölbreyttra gerða votlendis.

Hindranir

Styrkjakerfi, lög og reglugerðir stangast oft á markmið um vernd og endurheimt votlendis. Stutt er síðan að framræsla og ræktun á framræstu landi var þjóðþrifamál og því gætir tortryggni almennings og landeigenda í garð málaflokksins.

Tækifæri

Á Íslandi eru enn stór flæmi óraskaðra mýra sem gegna lykil hlutverki sem kolefnisbanki og þegar kemur að líffræðilegum fjölbreytileika. Tiltölulega auðvelt er að endurheimta stóran hluta þeirra mýra sem hefur verið raskað hérlendis.

Áður fyrr áttu Íslendingar alla sína afkomu undir nýtingu náttúruauðlinda. Nýtingin leiddi oft á tíðum til hnignunar viðkvæmra vistkerfa landsins.

Nú er komið að okkur að gefa náttúrunni til baka og endurheimta röskuð vistkerfi komandi kynslóðum til hagsbóta